Upplýsingar til brotaþola

Ef brotaþoli óskar eftir því og brýnir hagsmunir hans krefjast þess getur Fangelsismálastofnun upplýst hann um tilhögun afplánunar þess aðila sem brotið hefur gegn honum. Vakin er athygli á því að vilji brotaþola er hafður í fyrirrúmi en í sumum tilvikum vill brotaþoli ekki fá slíkar upplýsingar. 

Hvað er átt við með tilhögun afplánunar?  

Upphaf afplánunar og lok ásamt öðrum atriðum svo sem upplýsingar um vistunarstað og hvort afplánun fer fram í opnu eða lokuðu fangelsi. Þá falla einnig undir upplýsingar um hvort fangi afpláni refsingu sína utan fangelsis, svo sem með samfélagsþjónustu, á áfangaheimili eða undir rafrænu eftirliti. Einnig er heimilt að láta brotaþola vita af því þegar fangi fær hlé á afplánun, leyfi til að dvelja utan fangelsis, t.d. dagsleyfi og ef hann strýkur úr afplánun. 

Hér eru nánari upplýsingar fyrir brotaþola m.a. varðandi tilhögun afplánunar: 
https://www.112.is/eftir-dom

Hvað teljast brýnir hagsmunir?

Þegar lagt er mat á það hvað teljast brýnir hagsmunir er litið til eðlis þess brots sem fangi hefur verið dæmdur fyrir. Því alvarlegra sem brotið er, þeim mun meiri hagsmuni getur brotaþoli haft af því að fá upplýsingar um tilhögun afplánunar. Kynferðisbrot falla hér undir ásamt öðrum alvarlegum brotum, svo sem meiri háttar líkamsárás og heimilisofbeldi. Manndráp, líkamsmeiðingar og brot gegn frjálsræði manna geta einnig fallið hér undir. 

Hvað þarf brotaþoli að gera til að fá upplýsingar?

Senda póst á fullnusta@fangelsi.is þar sem óskað er eftir upplýsingum.