Boðun í fangelsi
Tilkynning um afplánun
Fangelsismálastofnun sendir dómþola boðunarbréf eins fljótt og hægt er eftir að dómur berst stofnuninni.
- Dómþoli er boðaður til afplánunar með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara í Fangelsið Hólmsheiði.
- Ef dómþoli er grunaður um að hafa framið refsiverðan verknað á ný eða hætta er á því að hann reyni að koma sér undan refsingu er heimilt að láta hann hefja afplánun án boðunar eða áður en afplánun á að hefjast samkvæmt boðunarbréfi. Sama gildir ef almannahagsmunir mæla með því.
- Ef fangi er í afplánun þegar nýr dómur berst er hann látinn hefja afplánun í beinu framhaldi af fyrri dómi.
- Ef fangi er í gæsluvarðhaldi þegar dómur berst hefst afplánun hans þá þegar.
- Ef dómþoli óskar eftir því að hefja afplánun fyrr en ákveðið er er reynt að verða við því.
Frestun afplánunar
Fangelsismálastofnun getur veitt dómþola frest á afplánun ef sérstakar ástæður mæla með því.
- Frestur getur ekki orðið lengri en þrír mánuðir.
- Ef lítið er um laus pláss í fangelsunum hefur Fangelsismálastofnun veitt lengri frest en í þrjá mánuði.
- Frestur á afplánun er alltaf bundinn því skilyrði að dómþoli sé ekki grunaður um að hafa framið refsiverðan verknað á ný.
- Heimilt er að setja fleiri skilyrði fyrir fresti á afplánun.
- Ef dómþoli rýfur skilyrði fyrir fresti má ákveða að hann hefji strax afplánun.