Umsóknir um samfélagsþjónustu vegna vararefsingar fésekta

Hvernig sæki ég um?


Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra – Innheimtumiðstöð sér um innheimtu sekta. Sem innheimtuaðili tekur sú stofnun ákvörðun um að aðila beri að afplána vararefsingu fésekta í fangelsi þegar talið er að innheimtuaðgerðir skili ekki árangri. Þegar búið er að birta þá ákvörðun er aðila afhent umsóknar-eyðublað um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu í stað afplánunar í fangelsi, sem hann þarf að fylla út og skila til Innheimtumiðstöðvarinnar. 

Hægt er að hafa samband við Sýslumanninn á Norðurlandi vestra - Innheimtumiðstöð í síma 458 2500 eða senda tölvupóst á netfangið innheimta@syslumenn.is

Upplýsingaskjal um samfélagsþjónustu í stað vararefsinga

Hvert sendi ég umsóknina?

Umsóknir um samfélagsþjónustu vegna vararefsingar fésektar eiga að berast Innheimtumiðstöð, sem sér um að koma þeim áleiðis til Fangelsismálastofnunar. 

Athuga skal að aðila ber að skila útfylltu umsóknareyðublaði til Innheimtumiðstöðvar ekki seinna en sjö dögum eftir að honum barst tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar (þar sem með fylgir umsóknareyðublað um samfélagsþjónustu í stað vararefsingar). 


Ákvörðun um samfélagsþjónustu og vinnustað


Eftir að Fangelsismálastofnun hefur móttekið umsókn um samfélagsþjónustu er hún metin og kannað er hvort öll skilyrði eru uppfyllt. 

Ef umsóknin er samþykkt er haft samband við umsækjanda og í framhaldi af því er vinnustaður ákveðinn. Síðan fær viðkomandi afhenta vinnuáætlun og samning og eru honum kynntar reglur samfélagsþjónustunnar.