Afplánun
Hagnýtar upplýsingar í upphafi afplánunar og frekari upplýsingar um einstaka þætti afplánunar.
Upphaf afplánunar
Hvenær á ég að mæta í afplánun?
Fangar skulu mæta til afplánunar í Fangelsið að Hólmsheiði. Mæting skal vera fyrir kl.17:00 á þeim degi sem þeir eru boðaðir í fangelsi.
Nánari upplýsingar um boðun í fangelsi.
Hvað má ég hafa með mér í afplánun?
Við upphaf afplánunar má fangi hafa með sér eftirfarandi fatnað:
Fernar buxur, sex boli, átta pör af sokkum, átta nærbuxur, fjóra brjóstahaldara, þrenn pör af skóm (þ.m.t. eitt par af inniskóm og eitt par af kuldaskóm), eina úlpu, einn jakka, eina húfu og eitt par af vettlingum. Frítt aðgengi er að þvottavél í öllum fangelsum.
Snyrtivörur sem snúa að daglegri umhirðu, svo sem tannkrem, sjampó, hárnæring, svitalyktareyðir, húðkrem og varasalvi er til sölu í fangelsinu. Þó má fangi hafa með sér eitt stykki af eftirtöldum förðunarvörum: Mascara, augnblýant og rakakrem, má vera í lit.
Vakin er athygli á því að óheimilt er að hafa með sér matvæli og tóbak við komu í fangelsi en slíkar vörur er hægt að kaupa í fangelsinu.
Ef frekari spurningar vakna um hvað má hafa með sér við upphaf afplánunar skal hafa samband við Fangelsið Hólmsheiði í síma 520-5060 (eða það fangelsi þar sem viðkomandi á að hefja afplánun).
Hvar mun ég afplána?
Í flestum tilvikum hefja einstaklingar afplánun í Fangelsinu á Hólmsheiði. Fangelsismálastofnun ákveður hvort viðkomandi afpláni þar allan tímann eða verði fluttur í annað fangelsi. Slíkar ákvarðanir eru ekki teknar fyrr en eftir að viðkomandi er mættur til afplánunar. Við ákvörðun um vistunarstað skal m.a. tekið tillit til aldurs, kynferðis, búsetu, brotaferils og þyngdar refsingar.
Fjögur fangelsi eru á landinu. Fangelsið Hólmsheiði og Fangelsið Litla-Hrauni flokkast sem lokuð fangelsi en Fangelsið Kvíabryggju og Fangelsið Sogni eru opin fangelsi. Finna má frekari upplýsingar um hvert og eitt fangelsi.
Sækja þarf um flutning milli fangelsa á sérstöku eyðublaði. Eyðublaðið um flutning milli fangelsa má nálgast á varðstofum eða hér.
Innkomubæklingar
Allir fangar sem koma til afplánunar fá eftirfarandi innkomubæklinga:
Innkoma í fangelsi | Afplánun |
Arrival at Prison | Service |
Przyjęcie do zakładu karnego | Wykonywanie kary pozbawienia wolności |
Llegada a la prisión | Servicio |
ásamt nánari upplýsingum um lög og reglur:
Hvernig er samskiptum utan fangelsis háttað?
Fangar í lokuðum fangelsum hafa aðgang að síma á sameign. Þeir greiða fyrir símtölin með símkortum sem fást í verslun fangelsisins. Ekki er hægt að hringja í fangelsið en hægt er að skilja eftir skilaboð í talhólfi fangelsis eða á varðstofu.
Fangar í opnum fangelsum hafa aðgang að eigin farsíma (ekki snjallsíma).
Fangar geta móttekið bréf og sent bréf.
Fjármál og þóknun í fangelsi
Þóknun
Greiðslur í fangelsi eru skv. 27. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Þar segir að fanga skuli greidd þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms. Sé ekki unnt að útvega fanga vinnu, eða hann getur ekki sinnt vinnuskyldu eða námi, skal hann fá greidda dagpeninga fyrir þá daga sem hann hefði ella unnið. Ráðherra ákveður fjárhæð dagpeninga í reglugerð og skal hún miðast við að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu.
Nú gefst fanga kostur á vinnu eða námi eða hann útvegar sér hana sjálfur og fær hann þá ekki dagpeninga. Sama gildir um fanga sem vikið er úr vinnu eða námi eða neitar að vinna eða vera í námi án gildrar ástæðu.
Mikilvægt er að hafa í huga að tekjur geta minnkað til muna við það að hefja afplánun. Flestar bætur/greiðslur falla niður við upphaf afplánunar.
- Vinnumarkaður
- Ef þú kemur beint af vinnumarkaði er mikilvægt að fara yfir réttindi þín hjá vinnuveitanda og/eða stéttarfélagi vegna uppgjörs á orlofi.
- Örorka, endurhæfingarlífeyrir, ellilífeyrir
- Ef þú ert öryrki, á endurhæfingarlífeyri eða á ellilífeyri falla greiðslur niður við það að hefja afplánun. Þú gætir átt rétt á ráðstöfunarfé hjá Tryggingastofnun eftir að greiðslur örorku falla niður. Hægt er að sækja um ráðstöfunarfé hjá félagsráðgjöfum eða á varðstofu. Einnig má nálgast umsóknir á vef Tryggingarstofnunar. Fangi sem fær ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun missir rétt til dagpeninga frá Fangelsismálastofnun. Lífeyrisgreiðslur hefjast aftur við lok afplánunar í fangelsi. Athuga þarf að örorku- og endurhæfingarlífeyri þarf að endurnýja í einhverjum tilfellum.
- Ef um gæsluvarðhald er að ræða þá heldur viðkomandi fullum greiðslum í 4 mánuði.
- Fjárhagsaðstoð
- Hafir þú fengið greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi falla þær greiðslur niður um leið og þú hættir að uppfylla skilyrði félagsþjónustunnar. Félagsþjónustan er ekki upplýst um innkomu í fangelsi.
- Atvinnuleysisbætur
- Hafir þú fengið greiddar atvinnuleysisbætur falla þær greiðslur niður við upphaf afplánunar.