Þjónusta í fangelsi
Eftirfarandi þjónusta er í boði í fangelsum landsins.
Þjónustan er mismikil eftir fangelsum, mesta þjónustan er í Fangelsinu Litla-Hrauni og Hólmsheiði.
Félagsráðgjafar
Hjá Fangelsismálastofnun starfa þrír félagsráðgjafar sem sinna öllum fangelsunum sem og reynslulausnareftirliti.
Félagsráðgjafar beita heildarsýn á fjölbreytt verkefni sín þvert á svið Fangelsismálastofnunar og annarra stofnana. Markmið félagsráðgjafa er
að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við
félagslegu ranglæti. Félagsráðgjafi vinnur jafnframt gegn mannréttindabrotum
hvar svo sem þau eiga sér stað og hafa trú á getu einstaklings til að nýta
hæfileika sína til fullnustu.
Helstu verkefni félagsráðgjafa Fangelsismálastofnunar eru m.a.
- Einstaklingsviðtöl við fanga í afplánun.
- Námskeið og hópafræðsla fyrir fanga.
- Ráðgjöf innan Fangelsismálastofnunar varðandi einstök mál.
- Sinna tilkynningum til barnaverndar og samskiptum við barnavernd eftir þörfum.
- Samskipti við félagsþjónustu, Tryggingastofnun, heilbrigðisstofnanir, meðferðarstofnanir o.fl.
- Halda utan um afgreiðslur á umsóknum í meðferð og á heilbrigðisstofnunum.
- Eftirfygld með einstaklingum með alvarleg brot á Vernd og/eða í rafrænu eftirliti.
- Bera ábyrgð á umsjón og eftirliti með reynslulausn.
- Bera ábyrgð á eftirliti með einstaklingum sem eru með ákærufrestun, náðun eða skilorðsbundna refsingu með sérskilyrðum.
- Í sérstökum tilfellum viðtöl við aðstandendur.
Viðvera félagsráðgjafa er að jafnaði eftirfarandi
Hólmsheiði: Tvo daga í vikuLitla Hraun: Tvo daga í viku
Kvíabryggja: Ekki föst viðvera
Sogn: Aðra hvora viku
Læknar og hjúkrunarfræðingar
Í öllum fangelsum hafa fangar aðgengi að læknum og/eða hjúkrunarfræðingum, aðgengi er mismikið eftir stærð fangelsa. Í neyðartilfellum eru fangar fluttir á næstu heilbrigðisstofnun. Allar beiðnir um sérfræðiþjónustu lækna fara í gegnum fangelsislækni. Óskað er eftir viðtali við lækni eða hjúkrunarfræðing á þar til gerðum umsóknareyðublöðum eða á varðstofu.
Meðferðargangur - Vímuefnameðferð
Á Litla-Hrauni er starfræktur meðferðargangur og eru þar pláss fyrir ellefu fanga. Markmið meðferðargangs er að aðstoða fanga við áfengis- og vímuefnavanda en einnig að venja þá við að sinna daglegu skipulagi, draga fram styrkleika og veita aðstoð þegar kemur að hugsunum, tilfinningum og líðan. Allt þetta er miðað að því að auðvelda einstaklingum að koma aftur út í samfélagið að afplánun lokinni.
Einstaklingar sem eru ekki á meðferðargangi geta sótt um þjónustu sem fer þá fram til dæmis í formi viðtala og verkefna. Einnig er boðið upp á eftifylgni á Sogni, Vernd o.s.frv. Í einstaka tilvikum er aðstandendum fanga einnig veitt viðtöl.
Sótt er um vistun á meðferðargangi hjá meðferðarfulltrúum. Sótt er um viðtal hjá meðferðarfulltrúum á varðstofu óháð fangelsi.
Námsráðgjöf
Einn námsráðgjafi starfar í fangelsum landsins í 50% starfi. Námsráðgjafinn sinnir öllum fangelsum landsins. Fangar geta óskað eftir viðtali við námsráðgjafa á þar til gerðum eyðublöðum eða á varðstofu.
Upplýsingar um viðveru námsráðgjafa má nálgast á varðstofu hvers fangelsis.
Sálfræðingar
Hjá Fangelsismálastofnun starfa fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum. Þeir sinna öllum fangelsum á landinu sem og skilorðseftirliti. Þrír eru staðsettir í Reykjavík en sá fjórði á Litla-Hrauni. Almennt má segja að hlutverk sálfræðinga hjá Fangelsismálastofnun sé mjög fjölbreytt og umfangsmikið.
Skipta má starfinu í sex meginsvið
- Áhættu- og þarfamat
- Sálfræðilega meðferð, ráðgjöf og
stuðning
- Sinna starfsemi meðferðargangs á Litla-Hrauni ásamt meðferðarfulltrúa
- Kennslu, umsjón og uppbyggingu
sálfræðistarfs
- Ráðgjöf innan Fangelsismálastofnunar
varðandi einstök mál
- Rannsóknir
Meginmarkmið þjónustu sálfræðinga er að huga að almannahagsmunum með því að meta hættuna sem samfélaginu stafar af einstaklingum ásamt því að veita þeim sálfræðilega meðferð í samræmi við niðurstöðuna.
Í meðferðinni er unnið með þá áhættuþætti sem fram koma hjá einstaklingi og sem rannsóknir hafa sýnt að ýti undir áframhaldandi afbrotahegðun. Þannig miðar meðferðin að því að draga úr líkum á að einstaklingur brjóti af sér aftur og að hann aðlagist samfélaginu betur að afplánun lokinni. Annar þáttur í starfinu er að huga að andlegri líðan einstaklinga á meðan á afplánun stendur og styðja þá eins vel og mögulegt er til að takast á við refsivistina
Viðvera sálfræðinga er að jafnaði eftirfarandi
Hólmsheiði: Vikulega
Litla Hraun: Föst viðvera
Kvíabryggja: Ekki föst viðvera
Sogn: Vikulega
Trúmál - fangaprestur
Fangi á rétt á því að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags. Að auki á fanga að vera kleift að iðka trú sína eða sið auk þess sem tillit skal tekið til matarvenja og bænatíma í starfi og námi fanga eins og unnt er.
Þjóðkirkjan heldur úti embætti fangaprests. Hann sálusorgar fanga og fjölskyldur þeirra. Hann heimsækir fangelsi ríkisins reglulega og sinnir aðstandendum fanga eftir því sem þeir leita til hans eða eftir beiðni frá fanga eða öðrum skyldmennum. Þjónusta fangaprests einskorðast ekki við þá sem eru í þjóðkirkjunni heldur stendur hún öllum til boða sem þiggja vilja þjónustuna.
Fangaprestur þjóðkirkjunnar er sr. Sigrún Óskarsdóttir. Hægt er að ná sambandi við hana í síma Þjóðkirkjunnar 856-1577 og í netfanginu: Sigrun.Oskarsdottir@kirkjan.is.
Nánari
upplýsingar um embættið og þjónustu fangaprests má finna á vefnum:
www.kirkjan.is/fangaprestur.