Reynslulausn

Meginreglur um veitingu reynslulausnar

Fangar geta fengið reynslulausn eftir annað hvort helming eða tvo þriðju (2/3) hluta refsitímans. Ungir fangar (21 árs og yngri) geta sótt um reynslulausn eftir þriðjung (1/3) refsitímans.

Ekki er hægt að afgreiða reynslulausn áður en afplánun hefst. 
Umsókn um reynslulausn má nálgast á varðstofu eða hér á vefnum.

Reynslulausn eftir helming refsitímans (1/2)


Þeir sem eru í fyrstu eða annarri afplánun og afplána fyrir minniháttar brot s.s. vörslu og meðferð ávana og fíkniefna, akstur undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna, þjófnað, minniháttar líkamsárás, fjársvik, eignarspjöll og nytjastuldur fá yfirleitt reynslulausn eftir 1/2 hluta refsitímans. 

Reynslulausn eftir tvo þriðju refistímans (2/3)


Þeir sem afplána fyrir alvarleg brot, svo sem manndráp, kynferðisbrot, alvarlegar líkamsárásir og stórfelld fíkniefnabrot fá yfirleitt ekki reynslulausn fyrr en eftir 2/3 hluta tímans. Þeir sem eru að afplána í þriðja skipti eða oftar fyrir minniháttar brot fá yfirleitt ekki reynslulausn fyrr en eftir 2/3 hluta tímans. 

Reynslulausn fyrir unga fanga, 21 árs eða yngri (1/3)


Fangar sem voru 21 árs eða yngri þegar þeir frömdu afbrot og sýna af sér fyrirmyndarhegðun í afplánun geta fengið reynslulausn eftir 1/3 hluta refsitímans.

Hverjir fá ekki reynslulausn

  • Fangi sem á ólokið mál hjá lögreglu eða dómstólum fær yfirleitt ekki reynslulausn. 
  • Fangi sem afplánar blandaðan dóm, þ.e. ef hluti refsingar er skilorðsbundinn (dæmi: dómur er 3 mánuðir óskilorðsbundnir og 9 skilorðbundnir).
  • Fangi sem afplánar vararefsingu fésektar.
  • Fangi sem telst vera síbrotamaður eða hefur ítrekað fengið reynslulausn og rofið skilyrði hennar fær að jafnaði ekki reynslulausn á ný nema sérstakar ástæður mæli með því. 
  • Fangi fær ekki reynslulausn ef það telst óráðlegt vegna haga fangans eða með tilliti til almannahagsmuna, svo sem ef hann er talinn hættulegur öðrum.

Meginreglur um skilyrði á reynslutíma

  • Reynslutími getur mest verið fimm ár. Algengast er að hann sé 1-3 ár. 
  • Allar reynslulausnir eru bundnar því skilyrði að aðili brjóti ekki af sér á reynslutíma.
  • Fangelsismálastofnun getur sett frekari skilyrði fyrir reynslulausn, svo sem:
    o   að aðili sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar.
    o   að hann búi á ákveðnum stað, umgangist ekki ákveðna menn, s.s. brotaþola og iðki ekki tómstundir, t.d. þar sem börn eru.
    o   að hann sæti sérstakri meðferð, svo sem sálfræðimeðferð eða áfengis- og vímuefnameðferð.
    o   að hann hafi á sér búnað svo að hægt sé að fylgjast með ferðum hans.

Meginreglur um skilorðsrof

  • Ef maður fremur nýtt brot á reynslutíma sem varðað getur 6 ára fangelsi eða fremur meiri háttar líkamsárás getur dómari úrskurðað að hann skuli afplána eftirstöðvar reynslulausnar.
  • Ef maður fremur nýtt brot á reynslutíma getur dómari ákveðið að dæma upp reynslulausn í nýjum dómi.
  • Ef maður rýfur önnur skilyrði reynslulausnar getur Fangelsismálastofnun ákveðið að hann afpláni eftirstöðvar refsingar  í fangelsi.